Skátahreyfingin er alþjóðleg æskulýðshreyfing sem vinnur að valdeflingu ungmenna í þeim tilgangi að virkja þau til jákvæðra áhrifa í sínu samfélagi og til þátttöku í að bæta þann heim sem við búum í. Skátastarf er gefandi bæði fyrir ungt fólk og fullorðna sjálfboðaliða sem sinna starfinu með því. Í skátastarfi öðlast þú ekki eingöngu reynslu, kunnáttu og minningar heldur er félagsskapurinn líka frábær, tækifærin endalaus og starfið kemur í sífellu skemmtilega á óvart.
Skátafélögin í landinu eru mikilvægustu starfseiningar skátastarfs á Íslandi. Þau veita skátaflokkum og -sveitum þá umgjörð sem nauðsynleg er í ábyrgu æskulýðsstarfi. Meginhlutverk skátafélaganna er að standa fyrir reglubundnu skátastarfi fyrir börn og ungmenni á aldrinum 7-22 ára, sem starfa að jafnaði í aldursskiptum skátasveitum sem skipað er í flokka, auk skátaforingja og annarra fullorðinna. Ábyrgð skátafélaganna er mikil og því starfa þau eftir lögum og reglugerðum BÍS, æskulýðslögum, öðrum landslögum sem snerta starfsemi þeirra og þeim meginreglum sem stofnandi skátahreyfingarinnar, Baden-Powell, setti skátastarfi í skátaheiti og skátalögum.
Starfið í félagsstjórninni hefur gefið mér mikið. Verkefnin eru sannarlega ærin en þau eru fjölbreytt, gefandi og skemmtileg og oft á tíðum mikil áskorun sem þroskandi er að takast á við. Gunnar Atlason, Mosverjum
Það er að mörgu að hyggja fyrir stjórnendur góðs skátafélags svo tryggt sé að skátaforingjarnir, flokkar og sveitir búi við þá umgjörð sem nauðsynleg er í góðu æskulýðsstarfi. Félagsstjórnin er skipuð af samhentum hópi fullorðinna sjálfboðaliða sem missir aldrei sjónar á hlutverki sínu og ábyrgð. Meðal verkefna sem nefna má eru áætlanagerð, fjármál og rekstur, umsjón með húsnæði og stundum skála, samskipti við starfandi skáta í félaginu, foreldra og fjölmiðla, skipulagning viðburða, umsjón með félagatali og svo mætti lengi telja. Góðar félagsstjórnir eru lagnar við að laða að sér fullorðna sjálfboðaliða til að létta undir með starfinu. Þessir sjálfboðaliðar koma yfirleitt úr röðum eldri skáta eða úr hópi foreldra.
Skipulag skátastarfs á Íslandi
Skátar á aldrinum 7-22 ára starfa í skátafélögum. Algengast er að eitt skátafélag starfi í sveitarfélagi þó ekkert banni að þau séu fleiri. Í Reykjavík eru til dæmis skátafélög starfandi hvert í sínu borgarhverfi. Skátastarf fer fram á fimm aldursstigum samkvæmt starfsgrunni sem gefinn er út af Bandalagi íslenskra skáta (BÍS).
- Drekaskátar (7-9 ára)
- Fálkaskátar (10-12 ára)
- Dróttskátar (13-15 ára)
- Rekkaskátar (16-18 ára)
- Róverskátar (19-22 ára)
Skátarnir á hverju aldursstigi mynda skátasveit. Oft er ein skátasveit fyrir hvert aldursstig í hverju skátafélagi, en ef skátarnir eru margir eru þær stundum fleiri. Hver skátasveit skiptist svo niður í skátaflokka, sem er grunneiningin í skátastarfi. Í hverjum flokki eru oftast 5-8 skátar. Rekka- og róverskátastarf er ekki virkt í öllum skátafélögum og í nokkrum tilvikum starfa t.d. róverskátar úr fleiri en einu skátafélagi saman í róverskátasveit.
Starfsgrunnur skáta fyrir 7-22 ára börn og ungmenni sem samþykktur var árið 2010 byggist á þýðingu og staðfærslu á handbókum sem gefnar eru út af alþjóðasamtökum skáta (WOSM). Starfsgrunnurinn er útfærsla á grundvallargildum beggja heimsbandalaga skáta, hann lýsir því hvernig skátastarf þarf að vera til að standa undir því nafni.
Á réttri leið
Á réttri leið er handbók um gæðamat í skátastarfi sem gefin var út árið 2005. Gæðamatið hefur tvíþættan tilgang, annan sem snýr að innra starfi félagsins og hinn sem snýr að því umhverfi sem skátafélagið starfar í.
Til þess að efla innra starf skátafélags þarf félagsstjórn að skipuleggja starfið fram í tímann, setja ramma utan um það og marka því stefnu. Stjórnir skátafélaga þurfa því að spyrja sig hvað þær ætli að gera og hvernig, hvaða áherslur ætlar félagið að hafa og hvernig eiga þær að koma fram. Með markvissu starfi stjórnar aukast líkur á að starfið í skátasveitunum eflist og þannig skipta störf stjórnar verulegu máli fyrir skátana og foreldra þeirra. Þegar félag hefur hlotið gæðaviðurkenninguna getur það á áþreifanlegan hátt sýnt sveitarfélagi, fyrirtækjum og öðrum að á vegum þess fari fram gæðastarf sem hlotið hafi viðurkenningu Bandalags íslenskra skáta. Gæðamatinu er skipt í fimm hluta: Skipulag félags, starf félags, fjármálastjórn, fræðslumál/menntun og samstarf). Hverjum hluta fylgja dæmi, leiðbeiningar og útskýringar þar sem talið var að það þyrfti.
Dæmin eru einungis ætluð til leiðbeiningar og á ekki að taka sem algildum sannleik um hvað sé sannast og réttast í skátastarfi. Skátafélög eru hvött til að sníða þau að eigin aðstæðum því mestu skiptir að félög sníði sér stakk eftir vexti.