Dróttskátafundir

Miðvikudagar 19:00-20:30
Skátaheimilinu Logafold 106, 112 RVK
Foringi: Embla Nótt Róbertsdóttir

Í Vogabúum er dróttskátasveit. Skátar á aldrinum 13-15 ára nefnast dróttskátar. Það er frábært að taka þátt í dróttskátastarfi, 5-7 vinir mynda flokk sem hittist einu sinni til tvisvar í viku og undirbýr eða framkvæmir verkefni sem hópinn langar til að vinna að.

Næstu viðburðir Dróttskáta

Viltu vera með?

Skráning í félagið

24Hour Callout

Skráning í félagið

UM STARF DRÓTTSKÁTA

Fjölmargir nýir möguleikar bjóðast skátum þegar þau komast á dróttskátaaldur. Þau geta tekið þátt í fjölda viðburða víðsvegar um landið sem þau gátu ekki sótt áður sökum aldurs ásamt því að fá sín fyrstu tækifæri til að ferðast á skátamót erlendis. Dróttskátar eru í virkara samráði við sína foringja um eigið starf og hljóta þannig aukið frelsi til að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd. Samhliða því vex ábyrgð þeirra á eigin starfi og á starfinu í skátafélaginu. Margir skátar taka sín fyrstu skref í foringjastörfum á þessum aldri og stendur því til boða að taka þátt í ýmsum námskeiðum tengd foringjastörfum. Í dróttskátastarfinu fá ungmenni tækifæri til að ferðast og spreyta sig á krefjandi verkefnum í hópi jafnaldra sem að standa þétt saman í starfinu. Þau kynnast ekki bara öðrum og ýmislegu um samskipti og samstarf. Þau kynnast líka sjálfum sér, eigin verðugleikum og getu í fjölbreyttu og skemmtilegu starfi.

VIKULEGIR HITTINGAR DRÓTTSKÁTA

Yfir starfsárið hittast dróttskátarnir vikulega á föstum tímum í skátaheimili síns félags og nágrenni þess, sá hópur myndar skátasveit. Dróttskátar starfa í svokölluðum skátaflokkum, líkt og fálkaskátar, þar sem 5 – 8 skátar vinna saman innan skátasveitarinnar yfir starfsárið. Samvinna innan dróttskátaflokksins er formfastari heldur en á yngri aldursbilum og skátarnir verða færari um að skipta með sér hlutverkum eftir styrkleikum hópsins. Dróttskátar sníða oft dagskrá algjörlega út frá eigin hugmyndum en hafa einnig aðgengi að tilbúinni dagskrá sem skátaflokkurinn mótar síðan áfram eftir sínu höfði. Dróttskátasveitin starfar líka oft sem heild eins og þegar stærri dagskrárliðir eru á dagskrá og í undirbúningi ferða. Skátaforingjar dróttskáta tryggja þeim æskileg tól og fræðslu til að mæta áskorunum aldurbilsins og hvetja þau til að finna í sífellu nýjar leiðir til að ögra sjálfum sér í skátastarfi.

VIÐBURÐIR Á VEGUM SKÁTAFÉLAGSINS

Innan skátafélagsins hafa dróttskátar tækifæri til að fara í fjölda ferða. Líkt og skátar á yngri aldursbilum býðst dróttskátum að fara í dagsferðir á vegum félagsins eða í félagsútilegur ásamt öllum í skátafélaginu en á dróttskátaaldri byrja skátarnir að geta farið í ferðir og útilegur sem þauþeir skipuleggja sjálf auk þeirra sem skipulagðar eru fyrir þau.

Líkt og hjá fálkaskátum eru sveitarútilegur þar sem dróttskátar úr sama félagi fara saman í helgarferð, stór hluti af starfi þeirra en á þessum aldri er skipulag og framkvæmd sveitarútilegna meira í höndum dróttskátanna með dyggri leiðsögn skátaforingja. Dróttskátarnir ráða ekki eingöngu dagskránni heldur oft líka hvert skal haldið, hvernig skal fara þangað, hvort gist sé í tjaldi eða skála, hvað sé á matseðlinum, hvernig skal elda og ýmsu öðru tengt ferðinni. Í sveitarútilegum vinna dróttskátarnir náið saman og tengslin á milli þeirra verða ennþá sterkari, þau eignast sameiginlegar sögur og minningar og liðsandi sveitarinnar eflist til muna.

Dróttskátar fara í félagsútilegur þar sem þau taka þátt í dagskrá ásamt yngri og eldri aldursbilum. Félagsútilegur eru gjarnan einu sinni á önn og þar fá dróttskátar tækifæri til að tengjast stærri hópi skáta sem þau tilheyra innan skátafélagsins.

Í mörgum skátafélögum byrja dróttskátar að fá tækifæri til að taka þátt í skátamótum erlendis á vegum landssamtaka skáta víða um heim og stundum fá þau ráðið hvert sér farið. Að ferðast utan á skátamót er á meðal skemmtilegustu upplifana í skátastarfinu, þar gefst færi á að kynnast samhuga jafnöldrum og kynnast ólíkum menningarheimum hvors annars. Dagskrá á slíkum skátamótum er jafnan metnaðarfull og ógleymanlega skemmtileg. Það er ekki síður spennandi að upplifa hvernig skátastarf er samtímis líkt en ólíkt víðsvegar um heiminn.

VIÐBURÐIR Á VEGUM BÍS

Á vegum Bandalags íslenskra skáta (BÍS), landssamtaka skátafélaganna, er fjöldi viðburða haldinn fyrir dróttskáta á ári hverju en umgjörð og fjöldi þeirra viðburða er breytilegur eftir áherslum sjálfboðaliðanna sem standa að þeim. Viðburðirnir snúast oftast um að gefa dróttskátum færi á að stunda útivist eða afla sér einhverrar kunnáttu og fræðslu en eiga það allir sameiginlegt að gefa dróttskátunum færi á að kynnast og stunda skátastarf með jafnöldrum úr öðrum skátafélögum. Stundum standa dróttskátar sjálfir fyrir viðburðum þar sem þeir bjóða jafnöldrum úr öðrum skátafélögum og tryggja þannig enn betur að viðburðir standi til boða sem þeim þykja skemmtilegir.

VETRARÁSKORUN CREAN

Crean vetraráskorun fyrir dróttskáta er haldin í febrúar ár hvert. Viðburðurinn er samstarfsverkefni íslenskra og írskra skáta þar sem 20 íslenskir skátar og 20 írskir skátar fara í tveggja vikna útivistarævintýri þar sem þau kynnast undirstöðuatriðum fjallaferða og vetrarferðamennsku við alvöru aðstæður. Áður en lagt er upp í tveggja vikna ferðalag taka dróttskátarnir þátt í tveimur undirbúningshelgum þar sem þau fá þjálfun í þeim þáttum sem verður reynt á í ferðinni svo þau séu vel reiðubúin. Dróttskátar þurfa að sækja um þátttöku og geta eingöngu tekið þátt í viðburðinum í eitt skipti.

LANDSMÓT SKÁTA

Dróttskátar geta tekið þátt í Landsmóti skáta með sínu skátafélagi líkt og fálkaskátar en á dróttskátaaldri er dagskráin ólík þeirri sem yngri skátarnir taka þátt í. Mótið er haldið á fjögurra ára fresti, ýmist á Úlfljótsvatni og að Hömrum við Akureyri. Landsmótið er vikulangt mót fyrir alla skáta 10 – 18 ára þar sem skátar af öllu landinu koma saman og reisa tjaldbúð. Það má með sanni segja að á Landsmóti sé öllu til tjaldað og er dagskrá mótsins því hin glæsilegasta. Næsta landsmót verður haldið á Hömrum árið 2020.

LANDSMÓT DRÓTTSKÁTA

Landsmót dróttskáta er nokkurra daga skátamót í tjaldbúð þar sem öll dagskrá og umgjörð miðast við þennan aldur. Mótið er haldið á fjögurra ára fresti, alltaf tveimur árum eftir Landsmót skáta og því er aldrei langt á milli stórra skátamóta. Næsta Landsmót dróttskáta verður haldið árið 2022 en staðsetning er óákveðin.

EVRÓPUMÓT SKÁTA

Evrópumót skáta verður haldið nálægt Gdansk í Póllandi dagana 27. júlí – 7. ágúst árið 2020. Dróttskátar eru yngstu skátarnir sem geta tekið þátt í mótinu. Íslenskur fararhópur ætlar á mótið og áætlað er að dvelja í Gdansk nokkra daga eftir mót.

ALHEIMSMÓT SKÁTA

Alheimsmót skáta er haldið víðsvegar um heim með fjögurra ára millibili og eru dróttskátar yngstu skátarnir sem geta tekið þátt í mótinu. Alheimsmót eru stærstu viðburðir sem haldnir eru á heimsvísu á vegum skátahreyfingarinnar en skátar úr öllum heiminum koma þar saman, reisa tjaldbúð, kynnast hvert öðru og deila ólíkum menningarheim hvert með öðru. Dagskrá mótsins er einstök þegar horft er til stærðar og metnaðar. Fararhópur á mótið er myndaður af landssamtökum hvers lands og hefur BÍS tekið alltaf tekið þátt í mótinu síðustu áratugi. Næsta alheimsmót verður haldið í Suður Kóreu árið 2023.

EINKENNI DRÓTTSKÁTA

Klútur dróttskáta er grænn og festur með skátahnút sem skátarnir útbúa sjálfir eða bundinn með vinahnút. Klútinn fá skátarnir afhentan til að marka að þau séu vígðir meðlimir í skátahreyfingunni og hafi lokið vígslugrunni síns aldursbils. Vígslugrunnur dróttskáta er að vinna skátaheitið, þekkja kjörorð skáta og tileinka sér allar tíu greinar skátalaganna.

SKÁTALÖG DRÓTTSKÁTA

Skáti er hjálpsamur
Skáti er glaðvær
Skáti er traustur
Skáti er náttúruvinur
Skáti er tillitssamur
Skáti er heiðarlegur
Skáti er samvinnufús
Skáti er nýtinn
Skáti er réttsýnn
Skáti er sjálfstæður

Aldursmerki dróttskáta eru þríhyrningslaga og eru saumuð aftan á klútinn. Brún merkisins markar aldur dróttskátans þar sem brons er fyrir 13 ára, silfur fyrir 14 ára og gull er fyrir 15 ára. Merkin fá skátarnir afhent frá sínum skátafélögum sem hafa ólíkan hátt á því hvernig og hvenær þau eru afhent.

FÆRNIMERKI DRÓTTSKÁTA

Færnimerkin eru ofin merki sem skátarnir geta unnið sér inn með því að ljúka tilteknum dagskrárgrunni sem liggur að baki hverju merki. Dagskrá færnimerkjanna þekur breitt áhugasvið og eru þess eðlis að einstakir skátar geta unnið að þeim á eigin vegum, í smærri hópum skáta eða með allri skátasveitinni. Á dróttskátaaldri standa öll færnimerkin til boða en mörg þeirra færnimerkja sem dróttskátar geta unnið að eru lokastig þeirra merkja sem skátar á yngri aldursbilum geta unnið að.

Óska eftir símtali

    Starfsmaður Vogabúa mun hafa samband við þig og svara spurningum þínum um skátastarfið.

    Skráðu þig í Skátafélagið Vogabúar

    Skemmtilegt starf fyrir skáta á öllum aldri

    Skráning í félagið